Tvö þúsund athugasemdir barna til bæjarstjóra

Brynjólfur Skúlason, Ari Orrason, Embla K. Blöndal og Ásthildur Sturludóttir.
Brynjólfur Skúlason, Ari Orrason, Embla K. Blöndal og Ásthildur Sturludóttir.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, fékk í morgun afhentan þykkan bunka af óskum og hugmyndum grunnskólabarna sem var safnað í tilefni af viku barnsins. Í kjölfarið áttu fulltrúar úr ungmennaráði gagnlegan fund með bæjarstjóra þar sem ýmis mál voru rædd.

Viku barnsins að ljúka

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er 30 ára í dag, 20. nóvember, og er þessi dagur á alþjóðavísu tileinkaður réttindum barna. Eins og mörgum er kunnugt vinnur Akureyrarbær að því, fyrst íslenskra sveitarfélaga, að ljúka innleiðingu á verkefninu Barnvænt sveitarfélag. Þar af leiðandi var ákveðið að halda viku barnsins á Akureyri, sem nær í senn hámarki og lýkur í dag. Síðustu daga hefur röddum og réttindum barna verið gert hátt undir höfði, meðal annars með fjölbreyttum viðburðum um allan bæ.

Mikilvægt að raddir barna heyrist

Eitt af því sem var gert í vikunni var að senda skapalón af loftbelg inn í alla grunnskóla Akureyrar. Loftbelgurinn táknar hugmyndir barna og þau skrifuðu niður hvað þau vilja í sínu samfélagi. Sum skrifuðu hverju þau vilja breyta í sínu nærumhverfi en önnur hvað þau vilja til handa öllum börnum í heiminum. Afraksturinn, litríkur og fallegur, var afhentur Ásthildi bæjarstjóra í morgun, alls um 2.000 loftbelgir!

„Það er frábært að fá allan þennan fjölda fjölbreyttra athugasemda barna og ungmenna í bænum. Það er mikilvægt að þeirra raddir heyrist og er það eitthvað sem við verðum að taka alvarlega og vinna með,“ segir Ásthildur.

Vilja reglulega fundi með bæjarstjóra

Að lokinni afhendingu var haldinn fundur ungmenna og bæjarstjóra. Ari Orrason, Brynjólfur Skúlason og Embla K. Blöndal, fulltrúar ungmennaráðs, ræddu ýmis mál við Ásthildi. „Það var mjög ánægjulegt að fá fund með Ásthildi, við komum af stað nokkrum umræðum og það er alveg klárt eftir þennan fund að þetta megi endurtaka reglulega, ekki bara við sérstök tilefni. Við vonum að fundurinn muni skila árangri og að bæjarstjóri hafi tekið raunverulega mark á því sem við höfðum fram að færa,“ segja fulltrúar ungmennaráðs. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan